Um mig og mína

Ég heiti Helga Kristrún og er 30 ára gömul. Ég er gift Jónínu Sigríði og saman eigum við þriggja ára sták, Björgvin Unnar. Við búum í Hafnarfirði.

Sonur minn, Björgvin Unnar, fæddist langveikur og eyddum við fjölskyldan fyrstu tveim árunum flakkandi milli deilda og landa á spítala. Hann hefur farið í gegnum allskonar erfiðleika og endaði með túpu í hálsinum og öndunarvél. Hann er hins vegar allur að styrkjast og er búinn að losa sig við öndunarvélina á daginn og stefnir í að losa sig við hana á næturnar líka á næstunni. Allt þetta hefur haft mikil áhrif á heilsu okkar foreldrana. Jónína er búin að prófa ýmis líkamleg veikindi og núna síðast var hún greind með complex mígreni sem varð til þess að hún varð frá vinnu í tæpt ár. Ég hef tekið þennan tíma út á andlegu heilsunni, er búin að þróa með mér mikinn kvíða og þunglyndi.

Ég lærði förðun hjá Reykjavik Makeup school og útskrifaðist þaðan í desember 2017. Ég hef mikinn áhuga á förðun og snyrtivörum og nota eingöngu vörur sem ekki eru prófaðar á dýrum og kýs vegan vörur fram yfir aðrar. Ég held úti Instagram síðunni @vegansnyrtivorur þar sem ég tek saman upplýsingar um vegan snyrtivörur sem fást á Íslandi.