Lífið og tilveran
-
Skókaup
Nú er ég búin að vera að leita mér að fallegum góðum götuskóm í góðan tíma. Ég er með kröfur, ég vil alveg svarta skó, þægilegir, með góðum botni, mjúkir að innan, fallegir, klassískir og aðal atriðið var ekki úr leðri. Ég er búin að fara á milli búða og skoða og skoða og virtist ekki vera finna neitt. Allir skór sem mér fannst fallegir voru annað hvort óþægilegir eða úr leðri.
Loksins fann ég skó sem tikkuðu í öll boxin og ekki skemmdi fyrir að það var 70% afsláttur af þeim.
Skórnir eru frá merkinu Super Cracks og fást hjá Skórnir þínir í Smáralind.
-
Foreldragreiðslur
Reglurnar eru þannig að ef þú þarft á foreldragreiðum frá TR að halda vegna veikinda barns þá skuldbindur þú þig til að gera ekkert annað en að sjá um veika barnið. Líka á þeim tímum sem barnið er hresst og getur mætt í dagvistun – en ekki nógu hresst til þess að foreldri geti verið í stöðugri vinnu.
Þegar ég fékk foreldragreiðslurnar fyrst var það vegna þess að hann var oft veikur og af því hann var háður því að starfsmaðurinn hans gæti mætt með honum. Til að byrja með var hann veikur amk 1 dag í viku, eftir því sem tíminn leið varð ónæmiskerfið hans sterkara og hann hætti að vera jafn veikur, þá tók við að starfsmaðurinn hans var oft veikur. Þrátt fyrir öll þessi veikindi voru margir dagar þar sem hann komst á leikskólann og ég því ein heima á meðan. Þennan tíma má ég ekki nýta í nám, vinnu eða endurhæfingu. Þetta leiddi til mikillar félagslegrar einangrunar fyrir mig.
Til að byrja með vorum við búnar að vera á spítala í tæp tvö ár, áður en við komum heim með Björgvin Unnar, þar sem við Jónína höfðum enga krafta í annað en að sinna barninu okkar og vorum því báðar frá vinnu allan þann tíma. Jónína byrjaði svo að vinna, varð svo veik og var í endurhæfingu í tæpt ár og fór svo aftur að vinna á nýjum vettvangi. Á meðan stend ég bara í stað. Auðvitað get ég unnið einhverja sjálfsvinnu heima en eftir þetta langan tíma þá dregur alltaf meira og meira úr kraftinum.
Í dag stend ég svo frammi fyrir því að Björgvin Unnar er nógu hress til að mæta í leikskólann nánast alla dag og leikskólinn treystir sér til að taka við honum hluta úr degi þegar starfsmaðurinn hans kemst ekki, og jafnvel stendur til að leikskólinn taki alveg við honum eftir sumarið (en það á eftir að koma í ljós). Því eru forsendur fyrir foreldragreiðslum brostnar. Sem þýðir að nú á ég bara að vera tilbúin til að kasta mér í djúpu laugina og beint að vinna áttafjögur. Sem er engan vegin raunhæft fyrir mig. Ég mun þurfa að fara í endurhæfingu og læra aftur að vera með í samfélaginu. Ég þarf að æfa mig í að geta líkamlega og andlega verið utan heimilisins, að vera í kringum annað fólk.
Ef kerfið væri hagsýnna þá myndi það hvetja foreldra í minni stöðu til að sækja sér endurhæfingu eða stunda nám eða vinna hlutastarf á meðan foreldragreiðslurnar eru samþykktar. Það myndi skila af sér bæði hæfari foreldrum sem kæmust fyrr út á vinnumarkaðinn þegar veikindi barnsins eru ekki lengur jafn langvarandi og alvarleg.
Afleiðingin af þessu er í mörgum tilfellum mikil félagsleg einangrun.
Félagsleg einangrun ýtir svo undir félagskvíða. Félagskvíði er svo eitthvað sem ég þarf að vinna í endalaust til að komast í gegnum, en það er efni í nýja færslu.
-
Eldað fyrir barn sem borðar ekki